Alcoa Fjarðaál hefur skipt um samstarfsaðila um flutninga á áli og rafskautum milli Íslands og útlanda. Eimskip og Samskip hafa hingað til séð um þessa flutninga, en erlent fyrirtæki mun taka við flutningunum og er íslenska félagið ThorShip umboðsaðili erlenda félagsins hér á landi.

Í svari Eimskips við fyrirspurn vb.is segir að fyrirtækið hafi flutt rafskaut frá Mosjoen í Noregi til Reyðarfjarðar frá árinu 2007 með tímaleiguskipinu S. Rafael í samstarfi við erlendan skipaeiganda. Þessir flutningar hafi numið um 15% af heildarflutningsmagni Alcoa til og frá Íslandi á ári.

Í nóvember 2011 bauð Alcoa út flutning á áli og rafskautum og tilkynnti Eimskip í janúar 2013 að það hyggist ganga til samninga við CargoW um flutninga á áli og rafskautum frá byrjun mars 2013.

Í svarinu segir að breytingarnar hafi óveruleg áhrif á rekstrarafkomu Eimskips þrátt fyrir að félagið sjái á eftir þessum flutningum á rafskautum. Eimskip sinni allri hafnarstarfsemi fyrir Alcoa á Mjóeyrarhöfn þar sem um 50 starfsmenn sinna þeirri þjónustu. „Eimskip hefur á undanförnum misserum bætt við aðstöðu sína á höfninni til að sinna hafnarverkefnum fyrir Alcoa og aðra viðskiptavini. Eimskip gerir ráð fyrir aukinni hafnarstarfsemi í tengslum við þessar breytingar og áætlar að fjölga þurfi starfsmönnum um 20% á Mjóeyrarhöfn,“ segir í svari Eimskips.

Samskip hefur haft flutningasamninginn við Alcoa um útflutning á áli frá árinu 2007, og segir í svari Eimskips að þessir flutningar hafi numið um 30% af heildarflutningsmagni álversins á ári. Þá séu um 50% af flutningum Alcoa innflutningur á súráli sem flutt er með erlendum skipafélögum.

Algerlega óveruleg áhrif

Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að um sértæka flutninga hafi verið að ræða frá Reiðarfirði til Rotterdam, sem ekki hafi verið inni í hefðbundnu framleiðslukerfi fyrirtækisins. „Um hefur verið að ræða umtalsvert magn af áli, en það að missa flutningana hefur algerlega óveruleg áhrif á afkomuna hjá fyrirtækinu. Það styttist í enda samstarfsins um þessa flutninga við Alcoa og við viljum þakka Alcoa samstarfið um flutningana á liðnum árum.“