Eimskip Flytjandi hefur tekið í notkun nýja vörudreifingarmiðstöð á Reyðarfirði og er þetta fyrsta sérhannaða vörudreifingarmiðstöðin sem Eimskip reisir utan Reykjavíkur. Framkvæmdir við bygginguna hófust í maí og tók því aðeins um fimm mánuði að byggja húsið.

Fram kemur í tilkynningu að nýja dreifingarmiðstöðin er 668 fermetrar að stærð. Á húsinu eru þrír hleðslurampar og tvær stórar vöruhurðir auk þess sem nú eru undir einu og sama þakinu bæði kælir og frystir. Við þetta batnar öll vörumeðhöndlun þar sem hleðslurampar auðveldi lestun og losun flutningabíla.

Í tilkynningunni segir að nýja dreifingarmiðstöðin á Reyðarfirði sé mjög vel staðsett á Austurlandi enda steinsnar frá annarri stærstu flutningahöfn landsins, Mjóeyrarhöfn.

„Við höfum beðið lengi eftir þessu húsi til að geta þjónað okkar viðskiptavinum á Austurlandi enn betur. Með þessu húsi erum við að taka stórt framfaraskref í vöruafgreiðslu Eimskips á Austurlandi og erum stolt af því. Ég er sannfærður um að tilkoma þess mun hafa mjög jákvæð áhrif á þjónustu Eimskips fyrir viðskiptavini fyrirtækisins á Austurlandi,“ segir Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips, í tilkynningunni.

Landstólpi byggði húsið og VSÓ ráðgjöf sá um að bjóða verkið út og hafði auk þess eftirlit með framkvæmdunum.