Ný skrifstofa Eimskips í Kína verður opnuð þann 1. nóvember næstkomandi og er hún liður í uppbyggingu flutninganets Eimskips fyrir sjávarafurðir á heimsvísu. Skrifstofan verður staðsett í hafnarborginni Qingdao á suðurströnd Kína þar sem rekin er umsvifamikil útgerð, fiskvinnsla og verslun með sjávarfang. Til að byrja með verður skrifstofan starfrækt sem útibú frá dótturfyrirtæki Eimskips í Hollandi.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að starfsmenn skrifstofunnar verða í upphafi átta talsins og hefur James Liu verið ráðinn framkvæmdastjóri. Liu er kínverskur og hefur margra ára reynslu af rekstri flutningaþjónustu fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum.

Aðalmarkaðssvæði Eimskips hefur verið á Norður-Atlantshafi en í kjölfar breytinga á viðskiptum með sjávarafurðir á heimsvísu hefur félagið ákveðið að færa út kvíarnar til annarra svæða. Vinnsla sjávarafurða fer nú í vaxandi mæli fram í Kína og kallar það á aukin umsvif flutningafyrirtækja sem flytja bæði hráefni til vinnslunnar og unnar afurðir frá Kína til kaupenda um heim allan. Þróunin hefur valdið því að flutningaleiðir eru nú fjölbreyttari en áður jafnframt því sem öryggi og hagkvæmni starfseminnar hefur aukist.
Fyrr á þessu ári stofnaði Eimskip fyrirtækið Eimskip Reefer Logistics BV í Hollandi og sérhæfir sig í flutningsmiðlun frystra og kældra sjávarafurða. Fyrirtækið hefur það hlutverk að samræma þjónustuframboðið hjá öllum starfsstöðvum Eimskips, bæði á Íslandi og erlendis. Þannig sér það um að tengja saman þjónustu Eimskips, dótturfyrirtækjanna CTG í Noregi og Skipafélags Færeyja, og aðkeypta þjónustu ýmissa annarra þjónustuaðila.