*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 25. febrúar 2021 16:27

Eimskip réttir sig af

Hagnaður flutningafélagsins fjórfaldaðist milli ára og EBITDA jókst um tvö prósent.

Ritstjórn
Vilhelm Már Þorsteinsson er forstjóri Eimskips.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Eimskip á síðasta ársfjórðungi 2020 nam um 800 þúsund evrum, jafnvirði um 123 milljón króna, samanborið við tap upp á 6,4 milljónir evra á sama tímabili árið á undan. Hagnaður síðasta árs nam 4,5 milljónum evra, um 690 milljónum króna, og ríflega fjórfaldaðist frá fyrra ári. Þetta kemur fram í ársuppgjöri félagsins.

Tekjur námu 668,3 milljónum evra og lækkuðu um 11,3 milljónir evra eða 1,7 % samanborið við árið 2019. Kostnaður nam 606,6 milljónum evra sem er lækkun um 12,4 milljónir evra milli ára eða 2,0%. Launakostnaður lækkaði um 18,1 milljónir evra eða 13,7% og þar af um 9,6 milljónir evra vegna hagræðingaraðgerða. EBITDA nam 61,7 milljónum evra samanborið við 60,5 milljónir evra fyrir árið 2019, sem er hækkun um 1,9%. EBITDA framlegð var 9,2% samanborið við 8,9% árið áður.

Eigið fé félagsins nam tæplega 231 milljónum evra í lok árs og var eiginfjárhlutfall þess 43%, það er prósentustigi lægra en árið á undan. Fjárfestingar á árinu voru nokkuð meiri en fyrra ár, 52,7 milljónir evra á móti tæpum 37 milljónum evra árið 2019. Það hafði áhrif á skuldsetningarhlutfall félagsins sem er nú í 3,33 en markmið félagsins er að nettó vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA séu á bilinu tveir til þrír.

„Ég er nokkuð ánægður með niðurstöðu ársins 2020 sem var krefjandi á margan hátt. Við héldum áfram að einblína á kjarnastarfsemi félagsins og arðsemi jókst á seinni hluta ársins í kjölfar umfangsmikilla hagræðingar aðgerða. Það gekk vel á Alþjóðasviðinu okkar sem og í innanlands starfsemi félagsins. Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir og umbætur í siglingakerfi félagsins er afkoman af þeim þætti rekstrarins enn undir væntingum,“ er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni í tilkynningu.

Launakostnaður lækkaði um 18,1 milljón evra milli ára og þar af um 9,6 milljónir evra vegna hagræðingaraðgerða. Að sögn forstjórans var mikil áhersla var lögð á sjóðstreymi og viðskiptakröfur á árinu og þriðjungi af fyrirhuguðum viðhaldsfjárfestingum ársins var frestað vegna óvissu tengdri COVD-19.

„Samhliða birtingu á uppgjöri félagsins í dag birtum við sjálfbærniskýrslu ársins. Á árinu voru margar stefnur tengdar málaflokknum uppfærðar og nokkrar nýjar litu dagsins ljós. Að auki höfum við uppfært þriggja ára aðgerðaráætlun um sjálfbærni. Við ætlum okkur að vera áfram leiðandi á þessu sviði og finnum fyrir auknum áhuga viðskiptavina á þessum málaflokki,“ segir Vilhelm í tilkynningunni.