Gengi bréfa í Eimskipum hefur verið á fljúgandi siglingu það sem af er degi en þegar þetta er ritað hefur það hækkað um nærri tíu present frá því að opnað var fyrir viðskipti á aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Stendur gengi þeirra nú í 442 krónum á hlut og hafa viðskipti með bréf félagsins numið ríflega 830 milljón krónum.

Eimskip birti eftir lokun markaða í gær uppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Þar kom fram að afkoma fjórðungsins hefði verið jákvæð um 466 milljón krónur en rétt er að geta þess að 1.500 milljón króna einskiptiskostnaður, vegna samkeppnissáttar við Samkeppniseftirlitið, féll til á fjórðungnum. Aðlöguð afkoma var því fjórfalt betri og aðlöguð EBITDA var um 4.440 milljón krónur.

Krotað var undir sáttina við eftirlitið um miðjan júnímánuð en þá var hluturinn verðlagður á 286 krónur. Á vikunum tveimur í kjölfarið reis gengi bréfanna skarpt og stóð í 377,5 krónum mánaðamótin júní júlí. Í upphafi viku var gengið komið upp í 418 krónur á hlut en lækkað frá því það sem af er viku.

Það sem af er ári hefur gengi félagsins hækkað um 57,6% og sé litið til sömu dagsetningar í fyrra hefur það hækkað um rétt tæplega 198% en þann 20. ágúst 2020 var hlutur í félaginu falur fyrir 136,5 krónur.