Eimskip og kínverska skipafélagið COSCO undirrituðu í síðustu viku samning um samstarf með sérstakri áherslu á flutninga á Norður-Atlantshafi og á alþjóðlega  frystiflutningsmiðlun. Í tilkynningu frá Eimskip kemur fram að einnig var gert samkomulag um framtíðarsamstarf á milli félaganna tengt mögulegum siglingum yfir Norðurheimskautið.

Fjölmargir fulltrúar erlendra fyrirtækja heimsóttu Eimskip í tilefni af 100 ára afmæli félagsins á föstudaginn. Þar á meðal voru fulltrúar frá COSCO sem er stærsta skipafélag í Kína og fimmta stærsta skipafélag í heimi.