Eimskip og breska landflutningafyrirtækið Innovate Holdings hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup Eimskips á helmingshlut í breska félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Í tilkynningu Eimskips segir að gert sé ráð fyrir að formlega verði gengið frá kaupunum fyrir lok apríl. Kaupverð er trúnaðarmál að ósk seljanda.

Innovate er eitt stærsta fyrirtæki Bretlands á sviði hitastýrðra flutninga með áætlaða veltu upp á tæplega 15 milljarða króna og tvöfaldast frá fyrra ári. Veltuaukningu má rekja til stórrar fjárfestingar í sambærilegu fyrirtæki í byrjun mánaðarins. EBITDA framlegð er áætluð um 5-6%. Kaupin hafa óveruleg áhrif á afkomu Avion Group en nánar verður greint frá áhrifum kaupanna á félagið síðar, segir í fréttatilkynningu.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, segir kaupin í Innovate mikilvæg í ljósi þess að Eimskip stefni að því að verða leiðandi aðili í hitastýrðum flutningum á alþjóðavísu.

?Við munum nú geta boðið viðskiptavinum okkar enn frekari þjónustu á þessu sviði. Til viðbótar við frystiflutningaskip Eimskips, kæli- og frystigeymslur og flutningakerfi um allan heim gefur sambandið við Innovate okkur tækifæri til frekari vaxtar í Bretlandi og á heimsvísu með þeirri yfirgripsmiklu þekkingu og sérhæfingu sem Innovate býr yfir á þessu sviði," segir Baldur.

Glitnir veitti ráðgjöf vegna kaupanna sem eru fjármögnuð með eigin fé og lánsfé. Kaupin eru liður í þeirri stefnu Eimskips að verða leiðandi aðili í hitastýrðum flutningum á alþjóðavísu.

Innovate rekur 25 vörugeymslur á 11 stöðum á Bretlandseyjum og er með 635 flutningabíla og hitastýrða tengivagna. Geymslugeta félagsins er 370 þúsund tonn. Hitastýrð geymslugeta Eimskips á Íslandi er samtals 7.000 tonn. Því er hitastýrð geymslugeta Innovate um 50 sinnum meiri.

Stjórnendateymi Innovate mun áfram starfa með nýjum hluthöfum. Hjá Innovate starfa um 1.400 manns.