Eimskip mun fækka stöðugildum um 15 hjá fyrirtækinu sem og dótturfélaginu TVG-Zimsen sem taka gildi frá og með 2. maí næstkomandi. Er fækkunin samhliða skipulagsbreytingum sem meðal annars felast í að sameina þrjár mismunandi aksturstýringardeildir hjá félögunum í eina einingu.

Eru breytingarnar sagðar snúa að samþættingu hluta af stoðeiningum félagsins í öflugar miðlægar einingar og skerpa á áherslum í þjónustu við viðskiptavini.

Þannig mun hluti stoðeininga TVG-Zimsen sameinast sambærilegum einingum Eimskip og annar hluti starfseminnar mun flytjast yfir í Vöruhótelið síðar í sumar. Eftir sem áður verður TVG-Zimsen rekið sem sjálfstætt dótturfélag Eimskip.