Fjármálaeftirlitið hefur sektað Eimskip fyrir að tilkynna ekki um að Gylfi Sigfússon, þáverandi forstjóri, og Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs hjá fyrirtækinu væru með réttarstöðu grunaðra í rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum Eimskips fyrr en tæpum fjórum vikum eftir að þeim var kunnugt um málið. Þetta kemur fram í sátt sem FME hefur náð við Eimskip.

Í sáttinn segir að starfsmönnunum hafi verið gert kunnugt um að þeir væru með réttarstöðu sakbornings með símtölum 25. og 27. apríl en Eimskip, sem skráð er í Kauphöll Íslands, hafi ekki greint frá því opinberlega fyrr en 24 dögum síðar. Í afkomutilkynningu Eimskips 17. maí 2018 kom m.a. fram að starfsmenn málsaðila hafi verið boðaðir til skýrslutöku af embætti héraðssaksóknara og meðal þeirra væru yfirstjórnendur Eimskips, þar með talið  Gylfi, sem hefðu fengið réttarstöðu sakbornings. FME fannst upplýsingarnar ekki nægjanlega ítarlegar svo Eimskip sendi aðra tilkynningu út um málið 21. maí 2018.

FME segir að ákvörðun sektarfjárhæðar hafi verið litið til þess að markmið reglna um upplýsingaskyldu útgefanda er að vernda trúverðugleika markaðarins og hagsmuni fjárfesta. Reglunum er ætlað að stuðla að trausti til markaðarins með því að tryggja að fjárfestum sé ekki mismunað og að þeim sé tryggður jafn aðgangur að upplýsingum. Þá tók sektarfjárhæðin mið af því að um tvö brot er að ræða af hálfu málsaðila og einnig tímalengdar þeirra. Auk þessa var tekið tillit til þess að Eimskip hafi áður brotið lög um innherjaupplýsingar. Árið 2017 sektaði FME fyrirtækið um 50 milljónir króna þar sem fyrirtækið birti ekki upplýsingar um bætta afkomu eins fljótt og auðið var.