Meirihlutaeigendur Avion Aircraft Trading eru nú að kaupa eftirstandandi 49% eignarhlutinn í fyrirtækinu sem er í eigu Eimskipa. Arctic Parners, sem er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar, stjórnarformanns AAT, Arngríms Jóhannssonar, stjórnarmanns í AAT og annarra stjórnenda AAT, keypti 51% hlut í fyrirtækinu á síðasta ári. Í ársuppgjöri Eimskipa 2006 kom fram að Arctic Partners hefði kauprétt að eftirstandandi hlutnum á 32 milljónir Bandaríkjadala, eða rúmlega 1,9 milljarða króna.

"Kauprétturinn er þarna til staðar og er hagstæður, en stærsta ástæðan fyrir því að við erum að kaupa er að Eimskip hefur ákveðið að selja allar flugtengdar einingar sínar og er nú verið fylgja eftir þeirri áætlun. Það er því ákveðin þrýstingur á okkur að nýta þennan kauprétt á þessum tíma," segir Hafþór Hafsteinsson, stjórnarformaður Avion Aircraft Trading.

Hann segir að engar breytingar séu fyrirhugaðar á rekstri fyrirtækisins í kjölfar kaupanna, en hugsanlega muni þau opna fyrir það að aðrir fjárfestar komi að félaginu, en það sé þó alveg óvíst.

Hafþór segir að félagið sé nú orðið það sterkt að það hafi alla burði til að gera stóra samninga í sveiflukenndum bransa. "Á sínum tíma var mjög mikilvægt að hafa sterkan bakhjarl, til að mynda þegar við hófum kaup á Boeing 777 þotum árið 2005. En á þessu ári höfum við keypt átta Airbus þotur og kom þar ábyrgð frá Eimskipum hvergi inn í myndina," segir Hafþór.