Eimskip hefur selt hluta fasteigna sinna  í N-Ameríku fyrir 690 milljónir CAD eða  um  43 milljarða  ISK á fjórða ársfjórðungi. Fjármunir verða nýttir  til að greiða niður skuldir vegna kaupa á Atlas og Versacold fyrr á árinuHf.

Eimskipafélag Íslands hefur gengið frá sölu á fasteignum  í Kanada fyrir 305 milljónir CAD  eða um 19 milljarða ISK. Eimskip mun nýta söluandvirðið til að greiða niður skuldir í samræmi við áður yfirlýsta stefnu félagsins. Kaupandi er  fasteignafélagið Kingsett í Kanada sem unnið hefur með Eimskip að kaupum  á Atlas og Versacold.

Eimskip hefur undanfarið ár yfirtekið fyrirtækin Atlas og Versacold í Kanada, sem voru tvö af stærstu kæli- og frystigeymslufyrirtækjum í N - Ameríku. Eimskip hefur með kaupunum náð leiðandi stöðu í geymslu kæli- og frystivara með hátt í 200 kæli- og frystigeymslum í fimm heimsálfum.

Heildarkaupverð Atlas og Versacold nam rúmlega 1.800 milljónum CAD eða um 113 milljörðum ISK. Eimskip sá mikil tækifæri í rekstri þessara félaga og að auki fólust mikil verðmæti  í fasteignum þeirra. Samkvæmt alþjóðlega matsfyrirtækinu CBRE er heildarverðmæti fasteigna félaganna um 1.600 – 1.700 milljónir kanadískra dollara eða um hundrað milljarðar ISK.

Í þessari lotu hefur  Eimskip gengið frá sölu á fasteignum fyrir  305 milljónir CAD en áður hafði Eimskip gengið frá sölu á fasteignum fyrir um 385 milljónir CAD, eða samtals fyrir 690 milljónir CAD eða um a 43 milljarða ISK, á fjórða ársfjórðungi.

Samhliða sölunni hefur Eimskip gert leigusamning um fasteignirnar,  en um er að ræða kæli- og frystigeymslur sem hýsa  hluta starfsemi félagsins í Kanada. Eimskip á eftir söluna fasteignir tengdar rekstri Versacold og Atlas sem metnar eru á 900 til þúsund milljónir  CAD, eða 56 – 63 milljarðar ISK. Þær fasteignir sem enn eru í eigu Eimskips verða  skildar frá rekstri félagsins og færðar inn í sérstakt félag sem Eimskip mun eiga að fullu fyrst í stað. Stefnt er að því að selja meirihluta í því félagi á næstu mánuðum.  Jafnframt verður unnið að endurfjármögnun á skuldum hins nýja fasteignafélags á betri kjörum en nú eru.