Eimskip [ HFEIM ] hefur samið um sölu á meirihluta hlutafjárs flugfélagsins Air Atlanta. Verðmæti  heildarhlutafjár félagsins er um 44 milljónir evra eða rétt um 3,9 milljarðar króna segir í tilkynningu.  Samhliða hefur Air Atlanta verið skipt upp í tvö félög, annars vegar flugfélagið Air Atlanta og hins vegar flugvélaeignarhaldsfélagið Northern Lights Leasing NLL sem hefur eignast flugflota Air Atlanta sem telur 13 breiðþotur. Eimskip hefur selt allt hlutafé sitt í rekstrarfélaginu Air Atlanta og jafnframt 51% í eignarhaldsfélaginu NLL sem á flugflota félagsins.

Félag í eigu stjórnenda Air Atlanta, undir forystu Hannesar Hilmarssonar forstjóra og Geirs Vals Ágústssonar fjármálastjóra hafa keypt allt hlutafé í flugfélaginu Air Atlanta.

Félagið Arctic Partners hefur keypt 51% í  félaginu NLL sem eignast hefur allan flugflota Air Atlanta. Arctic Partners á fyrir Avion Aircraft Trading. Arctic Partners er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar og innlendra og erlendra fjárfesta.

Stjórn HF Eimskipafélags Íslands tilkynnti 25. maí síðastliðinn um þau áform að selja Air Atlanta. Stefnt var því að ljúka söluferlinu fyrir lok yfirstandandi rekstrarárs. Þessi áform hafa nú gengið eftir. Með sölunni hefur Eimskip selt sig að fullu út úr flugrekstri og munu stjórnendur einbeita sér að meginstarfsemi félagsins sem eru flutningar og rekstur á kæli- og frystigeymslum. Eimskip hefur vaxið mjög hratt og hefur tífaldað umsvif sín á þremur árum. Félagið hefur nú 13% markaðshlutdeild á heimsvísu á þessu sviði.

Við söluna lækka skuldir félagsins um 210 milljónir evra. Að sama skapi verður eiginfjárhlutfall félagsins úr 32% í stað 29%. Allar tölur miðast við efnahagsreikning Eimskips þann 31. júlí 2007, sem er síðasta árshlutauppgjör sem félagið birti. Í því uppgjöri eru heildareignir Eimskips 1.954 milljónir evra, en hefðu verið 1.735 milljónir evra. Salan á Air Atlanta hefur óveruleg áhrif á rekstur Eimskips.

"Stefna Eimskips hefur verið að selja flugreksturinn út úr félaginu. Við kynntum þessa stefnumótun á síðasta uppgjörsfundi félagsins í sumar og nú er þessu verkefni lokið. Þetta er stór áfangi. Við höfum nú náð að lækka skuldir félagsins verulega og við munum í framhaldinu geta einbeitt okkur enn frekar að meginstarfsemi félagsins," segir Baldur Guðnason forstjóri Eimskips í tilkynningu.

"Með þessum viðskiptum er verið að skipta upp félaginu Air Atlanta í annars vegar félag um flugvélaflotann og hins vegar um reksturinn. Eimskip mun áfram eiga 49% í félaginu sem á flugvélaflotann en við stefnum á að fara út úr því líka þegar fram líða stundir.“

Hafþór Hafsteinsson, aðaleigandi Arctic Partners: “Markaður fyrir flugvélaviðskipti og flugvélaleigur er í sögulegu hámarki og því góð tækifæri í að leigja og selja með góðri afkomu þær vélar sem verða ekki í verkefnum hjá Atlanta eftir minnkun félagsins.  Arctic Partners er sterkur bakhjarl sem 51% eigandi í Northern Lights Leasing á móti Eimskip og hefur byggt upp mikla reynslu og gott orðspor á flugvélamarkaði í gegnum eign sína á Avion Aircraft Trading, félagi sem hefur keypt og selt 35 breiðþotur með góðum hagnaði undanfarin 2 ár.  Þessi tvö félög, Northern Lights Leasing og Avion Aircraft Trading munu vinna náið saman og verða mjög sterk félög á flugvélamarkaði.”

Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta: „Air Atlanta er þekkt alþjóðlegt flugfélag, sem hefur gengið í gegnum miklar og kostnaðarsamar breytingar undanfarin misseri. Það bíður okkar mikil áskorun að snúa við rekstrinum og það er okkar metnaður að byggja upp öflugt og arðsamt flugfélag á þeim rótgróna grunni sem að félagið byggir á.“