Eimskip hefur samið um lækkun á verði tveggja skipa sem félagið hefur samið um kaup á. Skipin verða afhent síðar en áður hafði verið ráðgert.

Í tilkynningu frá Eimskip er rifjað upp að á árinu 2011 samdi Eimskip við skipasmíðastöð Rongcheng Shenfei í Kína um smíði á tveimur gámaskipum. Skipin eru hvort um sig 875 gámaeiningar að stærð, þar af með tengla fyrir 230 frystigáma. Burðargeta skipanna er um 12 þúsund tonn, lengd 140,7 metrar og breidd 23,2 metrar.

„Samkvæmt samkomulagi við skipasmíðastöðina sem gert var í apríl 2013 átti fyrra skipið að afhendast á fyrsta ársfjórðungi 2014. Nú liggur fyrir nýtt samkomulag um afhendingu þar sem skipið verður afhent á öðrum ársfjórðungi 2014, en jafnframt því samkomulagi hefur Eimskip samið um frekari lækkun á kaupverði skipsins og nemur lækkunin USD 750 þúsund. Áður hafði félagið lækkað kaupverðið á báðum skipum um samtals USD 10 milljónir,“ segir í tilkynningunni. Sú lækkun sem kveðið er á um í nýja samkomulaginu nemur 87 milljónum króna. Fyrri lækkunin nemur 1,17 milljarði króna miðað við gengi krónunnar gagnvart dollara í dag.

Þá segir að afhending á seinna skipinu mun einnig tefjast. Ekki hafi verið gengið endanlega frá samkomulagi við skipasmíðastöðina varðandi afhendingu á því skipi, en áætlanir gera ráð fyrir að skipið verði afhent á fjórða ársfjórðungi þessa árs.

Eimskip segir að seinkunin á afhendingu skipanna muni ekki hafa áhrif á siglingakerfið eða þjónustu við viðskiptavini félagsins. Seinkunin muni þó hafa í för með sér áframhaldandi leigu á tveimur skipum, en gert er ráð fyrir að nýju skipin komi í stað tveggja leiguskipa sem félagið er með í rekstri í dag.