Hf. Eimskipafélag Íslands hefur samið um lánsheimild upp á allt að 300 milljónir evra til fimm ára eða sem samsvarar um 25 milljörðum íslenskra króna við ABN AMRO Bank í London. Lánsheimild þessi er sú stærsta sem Hf. Eimskipafélags Íslands hefur stofnað til segir í frétt félagsins.

ABN AMRO Bank í London kemur til með að fara með hluta af láninu á sambankamarkað, þ.e. að selja hluta af lánalínunni áfram til annarra banka og fjármálastofnanna.

Lánsfjármagnið verður nýtt til frekari fjárfestinga og vaxtar í flutningastarfsemi og kæli- og frystigeymslum í samræmi við stefnu félagsins en fyrir er félagið leiðandi í hitastýrðum flutningum á alþjóðavísu.

?Eimskip hefur verið í miklum umbreytingum síðustu misseri og erum við að vinna að stórum verkefnum um þessar mundir, svo sem kaup á Versacold sem er skráð fyrirtæki í Kanada og sala á fasteignum Atlas í Kanada og Bandaríkjunum. Það er því afar ánægjulegt að skrifa undir 5 ára lánalínu við ABN AMRO í London sem fyrsta skrefið í samstarfi á milli félaganna. Að auki er ánægjulegt að Eimskip fái gæðavott sem þennan frá virtum alþjóðlegum banka. Það rennur enn frekar styrkum stoðum undir þá stefnu Eimskips að byggja upp öflugt flutninganet sem samanstendur af skipum, flutningsmiðlun og kæli- og frystigeymslum á öllum helstu mörkuðum heims," segir Stefán Á.Magnússon, fjármálastjóri Eimskips, í tilkynningunni.