Eimskip, dótturfélag Avion Group, hefur skrifað undir samning um smíði á tveimur fullkomnum frystiskipum fyrir 260 milljónir norskra króna (3,12 milljarðar íslenskra króna króna), segir í fréttatilkynningu.

Eimskip segir fjárfestinguna vera hluti af þeirri stefnu fyrirtækisins að vera leiðandi flutningsaðili á Norður Atlantshafi og að samningurinn tryggi hagkvæmari og öruggari flutninga á vegum félagsins. Nýju skipin koma til með að leysa eldri skip félagsins af hólmi.

Með nýjum frystiskipaflota getur Eimskip boðið upp á enn fjölbreyttari flutninga á borð við hitastýrða flutninga á kjöti, grænmeti, ávöxtum og fleiri vörum á alþjóðavísu.

Nýju skipin efla flutningsnet Eimskips og Eimskip-CTG í Norður Atlantshafi. Félagið fékk nýtt frystiskip, Svartfoss, afhent í fyrsta sinn í nóvember á síðasta ári og á innan við einu ári tekur Eimskip við þremur nýjum frystiskipum til viðbótar. Samið var um smíði þeirra árið 2004 og 2005. Sex frystiskip hafa því verið í smíðum fyrir Eimskip síðan í lok ársins 2005.

Frystiskiptin verða byggð af Myklebust Verft AS í Noregi og verða þau afhent í júlí og nóvember árið 2007. Skipin verða í eigu Eimskips og í rekstri hjá dótturfélagi þess, Eimskip-CTG.

Nýju frystiskipin verða 80 metra löng og 16 metra breið. Hámarksganghraði þeirra verður 16 sjómílur á klukkustund og burðargeta 2.500 tonn. Fermingar og affermingar hraði er mjög mikill eða um það bil 200 tonn á klukkustund.

Eimskip-CTG sérhæfir sig í flutningum og geymslu á frosnum og kældum sjávarafurðum á Norður Atlantshafi. Með öflugu flutningskerfi býður Eimskip-CTG sjávarútvegsfyrirtækjum alhliða þjónustu, allt frá löndun og geymslu sjávarafurða til flutninga til kaupenda ásamt tengdri þjónustu.