Eimskipafélag Íslands hefur samið við tryggingafélögin Sjóvá og Royal & Sun Alliance (RSA) um vátryggingar Eimskips og tengdra fyrirtækja á um 300 starfsstöðum um allan heim. Vátryggingin nær til fasteigna félagsins og lausafjár. Um er að ræða stærsta vátryggingasamning sem íslenskt vátryggingafélag hefur gert og nær hann til allra dótturfélaga Eimskips víðsvegar um heiminn.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að áhættustýring eða „risk management“ sé afar mikilvægur þáttur samningsins og verður byggt upp víðtækt áhættustýringarkerfi í tengslum við samninginn. Slíkt kerfi tryggir jafnframt enn öflugara upplýsingakerfi til stjórnenda og að viðskiptavinir félagsins geta treyst á samræmda þjónustu og vernd í samskiptum við félagið. Að auki veitir Sjóvá og RSA Eimskip ráðgjöf um stjórnun áhættuþátta sem leiða til betri gæða og meiri áreiðanleika þjónustunnar.

Samhliða samningi Eimskips við Sjóvá og RSA hafa verið gerðir álíka samningar við vátryggjendur á öðrum sviðum, t.a.m. ökutækjatryggingar í Bretlandi auk samninga um víðtækar ábyrgðartryggingar er ná til starfsemi félagsins um allan heim.

Markmið þessara samninga er samræming vátryggingar Eimskips um allan heim, sem skilar mikilli hagræðingu og mun lækka heildar vátryggingaiðgjöld félagsins um ríflega fjórðung.

Í tilkynningunni er heft eftir Baldri Guðnasyni forstjóra Hf. Eimskipafélags Íslands;

„Þessi samningur er mikilvægur fyrir Eimskip og ekki síður fyrir viðskiptavini félagsins um allan heim. Sjóvá og samstarfsaðilar tryggja allar okkar starfsstöðvar með samræmdum hætti og þar með eykst sú vernd sem félagið nýtur og um leið eru hagsmunir viðskiptavina okkar betur varðir. Við náðum einnig þeim hagræðingarmarkmiðum sem við settum okkur, sem var að lækka heildariðgjöld félagsins verulega. Þetta er góður samningur og ég vænti mikils af honum.“