Heildarhagnaður Eimskips nam rúmlega 1,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en til samanburðar var hagnaðurinn á sama tíma í fyrra 392 milljónir króna. Tekjur félagsins voru rúmlega 33,5 milljarðar króna og jukust um 33% samanborið við fyrri hluta síðasta árs en kostnaður nam 29 milljörðum króna sem sem er hækkun um 27,7%. Hækkun kostnaðar má að mestu rekja til hærra olíuverðs.

„Ég er ánægður með frammistöðu okkar í upphafi árs sem sýnir að okkur hefur tekist að bæta árangurinn í gámasiglingum samanborið við óásættanlega niðurstöðu á sama ársfjórðungi í fyrra. Ytra umhverfið alþjóðlega er áfram hagstætt fyrir flutningageirann en á sama tíma er rekstraraðstæður áfram krefjandi,” segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips í afkomutilkynningu.

Hann segir jafnframt að það sé góður vöxtur á magni á Íslandi samanborið við fyrsta ársfjórðung síðasta árs og magn frystiflutnings í Noregi hefur haldist stöðugur. Sterk eftirspurn er eftir Trans-Atlantic flutningi og hefur siglingaleiðin vestur um haf verið fullbókuð og á sama tíma aukist til austurs. Félagið hefur ákveðið að auka afkastagetu á Norður-Ameríku leiðinni með því að færa tímabundið skip frá Noregi þar sem vertíðin þar er rólegri yfir sumarið.

„Við sjáum viss stöðugleikamerki í alþjóðlegum flutningaverðum og leiguverðum skipa en hins vegar er enn ójafnvægi og stíflur í höfnum sem hefur áhrif á markaðinn og staðan er viðkvæm. Alþjóðlegar efnahagshorfur einkennast af miklum sveiflum og spennu á alþjóðavettvangi með áskorunum bæði á eftirspurnar- og framboðshliðinni. Við erum almennt bjartsýn fyrir komandi mánuði.”

EBITDA félagsins nam 30,4 milljónum evra á fjórðungnum og jókst um 86% frá síðasta ári sem má að mestu rekja til magnaukningar í áætlunarsiglingum, bættrar afkomu í gámasiglingum auk góðs árangurs í alþjóðlegri flutningsmiðlun.