Eimskip hefur ákveðið, í samvinnu við viðskiptavini félagsins á Vestfjörðum, að hefja strandsiglingar á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur eftir margra ára hlé.

Í tilkynningu frá Eimskip kemur fram að Ameríkuskip félagsins, Reykjafoss og Celia, munu sinna þessari þjónustu á tveggja vikna fresti til reynslu næstu þrjá mánuði.

Þá kemur einnig fram að á síðustu tveimur árum hefur Eimskip unnið náið með fyrirtækjum á Vestfjörðum með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni í flutningum til og frá svæðinu.

„Eðli málsins samkvæmt hefur félagið því fengið mjög sterk og jákvæð viðbrögð við þessari ákvörðun frá ýmsum fyrirtækjum sem þurfa að flytja vörur til og frá Vestfjörðum,“ segir í tilkynningunni.

Þessi nýja þjónusta er til viðbótar við vikulegar viðkomur gámaskipa Eimskips á Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum á leið sinni frá Reykjavík til Evrópu.

„Það er svo sannarlega ánægjulegt að geta boðið upp á þessa þjónustu á ný, eftir nokkurt hlé,“ segir Guðmundur P. Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi.

„Jákvæð viðbrögð fólks og fyrirtækja á Vestfjörðum við þessari ákvörðun okkar komu okkur ekki á óvart. Vonir okkar standa til þess að þetta fyrirkomulag siglinga gefi góða raun og geti  til frambúðar styrkt byggð og atvinnustarfsemi í þessum þýðingarmikla landshluta.“