Fyrra skipið af tveimur nýjum gámaskipum Eimskipafélagsins var sjósett í Weihai í Kína síðastliðinn sunnudag. Fram kemur í tilkynningu frá Eimskipi að sjósetningin gekk að óskum og reiknað er með afhendingu í byrjun janúar á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að skipið verði komið í heimahöfn hér á landi á öðrum ársfjórðungi sama ár. Áætlað er að seinna skipið verði afhent um svipað leyti og það fyrra leggi við bryggju hér.

„Skipin eru systurskip hönnuð og byggð eftir þýskri fyrirmynd og aðlöguð að þörfum Eimskipafélags Íslands. Skipin eru 140,7 metrar á lengd, 23,2 metrar á breidd og rista 8,7 metra. Þau eru búin tveimur gámakrönum og geta borið 875 gámaeiningar hvort, þar af 230 frystigáma, og henta því afar vel til siglinga á markaðssvæði Eimskipafélagsins á Norður Atlantshafi. Skipin eru knúin 9.000 kw vél og eru hvort um sig með tveimur hliðarskrúfum Skipin eru jafnframt  um 12.000 tonn að burðargetu,“ að því er segir í tilkynningunni.

„Hluti af framtíðaruppbyggingu félagsins hefur byggst á að styrkja siglingakerfið á Norður Atlantshafi. Á vormánuðum voru kynntar til sögunnar margar nýjungar, svo sem strandsiglingar umhverfis Ísland, fleiri hafnarviðkomur í Færeyjum, tengingar inná Skotland og Pólland og aukin ferðatíðni og styttri ferðatími til  Bandaríkjanna,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri sklpaflutningafélagsins.