Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands, segir í nýjasta tölublaði Hafnarblaðs Faxaflóahafna að félagið hafi náð botninum eftir hrunið, en hann tók við forstjórastöðunni í maí 2008.

„Við höfum náð botninum og ég geri ráð fyrir að við eigum eftir að skrapa þann botn í minnst tvö ár í viðbót. Ef við lítum okkur nær og horfum á þróun inn- og útflutnings næstu tvö til þrjú árin, þá eigum við ekki von á mikilli aukningu. Kvótaskerðing, minni aðgangur að lánsfé, kaupmáttarrýrnun, frestun stóriðjuframkvæmda og fleira gefur ekki vonir um aukna flutninga. Við gerum þó ráð fyrir því í okkar áætlunum að okkur takist að halda sjó,“ segir Gylfi.