Forráðamenn Eimskipafélags Íslands hafa gert samninga um smíði tveggja mjög fullkominna frystiskipa og er kaupverð þeirra samtals um tveir milljarðar íslenskra króna. Samningarnir eru liður í áætlunum um að efla þjónustu félagsins á sviði frysti- og kæliflutninga og eru gerðir í kjölfar kaupa þess á meirihluta hlutafjár í norska flutningafyrirtækinu CTG AS (Coldstore & Transport Group). Nýju skipin verða hluti af víðtæku flutninganeti Eimskipafélagsins og CTG á Norður-Atlantshafinu.

Skipin verða byggð í Noregi og afhent í september 2005 og júní 2006. Stefnt er að því að nýju skipin tvö verði í vikulegum áætlanasiglingum milli Noregs, Bretlands og Hollands. CTG gerir nú út 3 skip til að sinna þessum áætlanasiglingum, en með tilkomu nýju skipanna verður hægt að fækka þeim niður í tvö en auka samt sem áður flutningsgetu skipa fyrirtækisins um 40%.

Nýju skipin verða um 80 metra löng og 16 metra breið. Hámarksganghraði þeirra verður 16 sjómílur á klukkustund og burðargeta er 2400 tonn. Þau munu hafa mikla afkastagetu í tengslum við lestun og losun. Skipin munu geta borið 1700 bretti og tuttugu og átta 40 feta gáma á þilfari. Á skipunum mun verða sk. síðuport sem gerir mögulegt að aka með bretti beint um borð í stað þess að þurfa að hífa þau með krana. Með þessum nýju skipum mun Eimskip geta boðið upp á vikulega gámaflutninga frá Norður Noregi til Bretlands og Hollands.

CTG sérhæfir sig í flutningum og geymslu á frystum og kældum sjávarafurðum og sigla skip félagsins frá höfnum í Norður- og Vestur-Noregi til landa í Vestur-Evrópu og við Eystrasalt. Flutningakerfi CTG samanstendur nú af tíu frysti- og kæliskipum og sex frystigeymslum í Noregi. Frystigeymslur CTG í Noregi eru staðsettar allt frá Kirkenes í norðri til Måloy í suðri og er samanlögð geymslugeta þeirra um 35 þúsund tonn.

Markmið Eimskips með kaupum á CTG er að efla enn frekar og samhæfa öflugt þjónustukerfi fyrir sjávarútvegsviðskiptavini á Norður Atlantshafi. Félagið flytur nú samtals um 300.000 tonn af sjávarafurðum á ári frá Noregi.

Til að styrkja betur þjónustu og samþættingu félagsins mun Hjörleifur Hjörleifsson sem veitt hefur kæli- og frystiskipaþjónustu Eimskips forstöðu, flytja til höfuðstöðva CTG í Sortland í Noregi. Viðskiptavinum á Íslandi mun þó eftir sem áður verða veitt þjónusta hjá Eimskip á Íslandi. Kaupin á CTG gera Eimskip kleift að bjóða íslenskum viðskiptavinum í sjávarútvegi öflugri og fjölbreyttari þjónustu en áður. Jafnframt verður skrifstofa Eimskips í Tromsö hluti af rekstri CTG í Noregi og mun Lára Konráðsdóttir veita henni forstöðu ásamt því að taka við starfi sem markaðsstjóri CTG.