Eimskipafélag Íslands hefur stækkað við sig í vöruhúsastarfsemi í Danmörku í kjölfar samstarfs við Damco og mun taka yfir 15.500 fermetra vöruhús þeirra í Árósum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Eimskip starfrækir 6.000 fm vöruhús í Danmörku við hlið Damco og verður hið nýja vöruhús samtals 21.500 fermetrar. Eftir breytinguna verður Eimskip stærsti rekstraraðili í alhliða vöruhúsaþjónustu í höfninni í Árósum.

„Ég er ánægður að sjá þetta verkefni í höfn. Frá og með 1. mars verður vöruhúsið hluti af starfsemi Eimskips, bæði gámahleðslustöðin og vöruhúsastarfsemin. Við hlökkum til samstarfsins með viðskiptavinum og starfsmönnum vöruhússins. Kaupin munu án efa styrkja starfsemi okkar í Árósum enn frekar og eru þau liður í frekari vexti Eimskips, bæði hér í Danmörku og á Norður-Atlantshafi,“ segir Sigurður Orri Jónsson, framkvæmdastjóri Eimskips í Danmörku.

Yfir 600.000 gámar fara um höfnina í Árósum á ári hverju og gerir það hana að næststærstu höfn Skandinavíu. Vöruhúsið er staðsett innan gámahafnar með beint aðgengi að höfninni.

Damco hefur starfrækt vöruhúsið í Árósum síðan árið 2003. Aðaláhersla hefur verið á hýsingu, pökkun, stórflutninga, umskipun, gámahleðslu, dreifingu, vörutínslu og merkingu. Peter Hag og Preben Nielsen munu stýra daglegri starfsemi.

Í kjölfar breytinganna verða starfsmenn Eimskips í vöruhúsinu 45 talsins og er áætlað að árleg velta Eimskips í Danmörku muni aukast um þrjár milljónir evra.