Eimskip hefur gengið frá kaupum á SAP fjármála- og flutningalausn frá Nýherja en ákvörðunin var tekin í beinu framhaldi af stefnumótun Eimskipafélagsins í upplýsingatæknimálum. ,,Eitt helsta markmiðið þar er að ná fram 200 milljóna króna hagræðingu í rekstri félagsins og mun SAP gegna þar lykilhlutverki," segir Árni Rafn Jónsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Eimskips.

Í tilkynningu frá Nýherja segir Árni að með því að sameina allar helstu upplýsingatækniþarfir fyrirtækisins í einum búnaði muni SAP einfalda mjög allan rekstur félagsins sem aftur muni skila sér í verulegri lækkun kostnaðar. Hann segir jafnframt að búast megi við að innleiðing SAP muni í mörgum tilfellum leiða til þróun nýrra og skilvirkari viðskiptaferla þar sem notaður verði staðlaður hugbúnaður SAP fyrir flutningafyrirtæki. Það leiði síðan til áþreifanlegs ávinnings fyrir viðskiptavini félagsins í enn betri þjónustu og aukinnar arðsemi fyrir hluthafa.

Að sögn Árna var SAP hugbúnaðurinn valinn í framhaldi af yfirgripsmiklu mati á viðskiptahugbúnaði ýmissa framleiðenda. ,,Niðurstaða þeirrar vinnu var að SAP hugbúnaðurinn væri best til þess fallinn að styðja við alla grundvallarstarfssemi fyrirtækisins. Þekking Nýherja, SAP og R5 A/S, sem er samstarfsaðili Nýherja við innleiðinguna, á flutningaiðnaðinum og reynsla í innleiðingu umfangsmikilla hugbúnaðarverkefna vó einnig þungt í ákvörðun félagsins."

Kristján Jóhannsson, framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Nýherja, segir að áætlað sé að innleiðing fyrsta áfanga verkefnisins taki um fimm mánuði en í heild sé um að að ræða stærstu hugbúnaðarinnleiðingu hjá íslensku flutningafyrirtæki á undanförnum misserum. ,,Hugbúnaðurinn verður innleiddur í nokkrum áföngum og mun því fara að skila félaginu ávinningi mun fyrr en ella. Mikil áhersla er lögð á skilvirka notkun hugbúnaðarins þar sem beitt er nýjustu tækni á sviði viðskiptahugbúnaðar sem SAP hefur þróað með einföldu aðgengi notenda og öflugum stjórnendaupplýsingum."