Þann 1. september tók til starfa nýtt félag sem Eimskip hefur stofnað á Spáni, Eimskip Logistics Spain S.L. Vigo er stærsta fiskihöfn Spánar og ein helsta miðstöð verslunar og flutninga á fiski og fiskafurðum í Evrópu.

Eimskip hefur boðið upp á reglulegar siglingar til Vigo í mörg ár, ásamt dótturfélagi Eimskips í Noregi, Cold Store and Transport Group AS (CTG). Um þessar mundir er verið að auka flutningsgetu CTG og eru fjögur frystiskip í smíðum fyrir félagið og það á kauprétt á fjórum skipum til viðbótar.

Þetta nýja félag er hluti af uppbyggingu Eimskips á hitastýrðum flutningum og verður mikilvægur hlekkur í alþjóðlegu þjónustuneti sem býður heildarflutningaþjónustu á matvælum, sem sérstakri áherslu á fisk og fiskafurðir. Netinu er stýrt af fyrirtækinu Eimskip Reefer Logistics B.V. í Hollandi og það samanstendur af 54 skrifstofum félagsins í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu, 30 skipum og 15 frystigeymslum í Evrópu, N-Ameríku og Asíu, ásamt ýmsum dótturfélögum og samstarfsaðilum.

Eimskip býður fjölþætta þjónustu fyrir sjávarútveginn sem samanstendur af löndunarþjónustu og flutningum um allan heim, ásamt geymslu- og dreifingarþjónustu. Eimskip meðhöndlar nú um tvær milljónir tonna af frysti- og kæliafurðum á ári.

Stofnun Eimskip Logistics Spain S.L. er hluti af uppbyggingu Avion Group sem leiðandi alþjóðlegt flutningafyrirtæki. Félagið starfrækir 85 starfsstöðvar víðs vegar um heiminn og starfsmenn félagsins eru á fimmta þúsund. Félagið býður viðskiptavinum sínum traustar, hraðvirkar og hagkvæmar lausnir í flutningum, með samhentri starfsemi sem á enga sína líka.