Eimskip Transport AB, dótturfélag Eimskips í Svíþjóð hefur stóraukið umsvif sín, bæði með kaupum á félaginu WLC Transport & Spedition AB í Helsingborg og með byggingu á nýju vöruhúsi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Eimskip hefur þegar tekið við rekstri félagins.

Rekstur WLC er hliðstæður því sem er hjá Eimskip Transport AB og rekur WLC einnig sitt eigið vöruhús. Hefur rekstur beggja félaganna verið sameinaður og jafnframt hefur verið samið um byggingu á nýju og fullkomnu vöruhúsi fyrir starfsemina, en eldri húsin hafa verið seld.

Geymslurými Eimskips Transport AB meira en tvöfaldast með þessu nýja vöruhúsi. Heildarstærð nýja vöruhússins er um 7.000 fermetrar og að auki verða um 500 fermetrar nýttir undir skrifstofuhúsnæði. Nýja vöruhúsið verður tekið í notkun næsta haust. Eimskip Transport AB er með rekstur bæði í Gautaborg og Helsingborg en Eimskip siglir til Gautaborgar í áætlunarsiglingum.

Eimskip keypti flutningafélagið Anderson Shipping AB í Helsingborg árið 1997 og var nafni þessi síðar breytt í Eimskip Transport AB. Starfsemi Eimskips í Helsingborg hefur undanfarið falist í rekstri vöruhúss, bæði fyrir þurrvöru og kælivöru, landflutningum, tollafgreiðslu, umboðsmennsku og almennri flutningsmiðlun.