Eimskip hefur styrkt Heilbrigðisstofnun Austurlands til kaupa á sónartæki fyrir um þrjár milljónir króna. Sónartækið er auðvelt í meðförum, mjög fjölhæft og öflugt og bætir til muna greiningu sjúkdóma, meina og áverka. Það gagnast m.a. við skoðanir á kviðarholi, brjóstholi og fóstrum á meðgöngu. Sónartækið hentar líka vel til skoðunar á  æða-, beina- og vöðvakerfi líkamans. Guðmundur P. Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi afhenti Einari Rafni Haraldssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunnar Austurlands, gjöfina á Reyðarfirði í tengslum við undirskrift Eimskips um umfangsmikla flutninga fyrir Alcoa Fjarðaál til og frá Reyðarfirði.

Starfsemi Eimskips á svæðinu hefur aukist til muna á undanförnum misserum og vill Eimskip sýna í verki að félagið hyggist taka þátt í skapa öflugra starfsumhverfi á Reyðarfirði.

Guðmundur P. Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi:“Rúmlega 30 ný störf hafa skapast á svæðinu á árinu til viðbótar þeim 40 störfum sem þegar voru til staðar hjá Eimskip á Austurlandi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Austurlandi undanfarin ár og hefur Eimskip tekið virkan þátt í þeirri þróun og ætlar að halda því áfram.”

Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Austurlands: „Stjórnendur HSA fagna því að fyrirtækið vill styrkja öryggisnetið sem starfsmenn þess og íbúar svæðisins hafa í formi heilbrigðisþjónustu. Við erum ákaflega þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf, því stofnunin hefur ekki bolmagn til að kaupa tæki sem þetta nema að fá til þess styrki eða sérstök framlög. Hjá starfsfólki okkar er til staðar kunnátta til að nýta tækið og með tilkomu þess aukast möguleikar á vandaðri greiningu sjúkdóma og meina.“