HF Eimskipafélag Íslands og Handknattleikssamband Íslands hafa undirritað styrktarsamning til þriggja ára. Samningurinn felur í sér að Eimskip verður aðalstyrktaraðili Bikarkeppni HSÍ í þrjú ár. Samningurinn tekur þegar gildi og stendur út  leiktíðina 2009/2010. Bikarkeppni HSÍ mun á samningstímanum heita Eimskips Bikarinn. Samnigurinn hljóðar upp á rúmar 10 milljónir króna til þriggja ára.

Samningurinn tekur til meistaraflokka karla og kvenna og einnig til yngri flokka. Bikarkeppni HSÍ eða Eimskips Bikarinn er eitt af flaggskipum íslenskra íþrótta og tekur samningurinn einnig til þess að gera þessa rótgrónu keppni að enn stærri viðburði en verið hefur. Hluti af þeim fjármunum sem Eimskip leggur fram fer einmitt í að auglýsa upp keppnina og tryggja að öll umgjörð verði eins og best má vera.

Samningurinn sem undirritaður var í gær er einn stærsti styrktarsamningur sem gerður hefur verið á þessu sviði í sögu handknattleikssambandsins. Keppni í Eimskips Bikarnum hefst næstkomandi sunnudag og við undirritun samningsins var dregið um leiki í fyrstu umferð.

Guðmundur P. Davíðsson, forstjóri Eimskip á Íslandi:

„Handknattleikur er þjóðaríþrótt okkar íslendinga og þar höfum við náð hvað lengst á alþjóðlegum vettvangi. Eimskip er það því mikið ánægjuefni að tengjast með afgerandi hætti þessari vinsælu íþróttagrein. Keppnisfyrirkomulagið í Eimskips Bikarnum er mjög skemmtilegt. Þetta  er landskeppni þar sem lið af öllu landinu mætast og spila til sigurs. Eimskip er um allt land og því er þetta rökrétt verkefni fyrir okkur.“

Guðmundur Ágúst Ingvarsson formaður HSÍ:

„Þessi samningur við Eimskip er gríðarmikilvægur fyrir handknattleikshreyfinguna á Íslandi. Bæði tryggir hann öfluga umgjörð um þessa rótgrónu og virðulegu keppni og um leið treystir hann hið öfluga unglingastarf sem HSÍ stendur fyrir. Það er afar áríðandi að stóru íslensku fyrirtækin vilji tengjast þjóðaríþróttinni okkar og nú hefur Eimskip stigið fram og gert það með myndarlegum og eftirtektarverðum hætti.“