Eimskipafélagið var rekið með 648 milljóna evra tapi á rekstrarárinu sem lauk 31. október 2008, eða sem nemur 97 milljörðum króna á núverandi gengi. Þetta er mun lakari afkoma en árið áður eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Tapið í fyrra skýrist aðallega af aflagðri starfsemi, en sem kunnugt er stendur nú yfir alger endurskipulagning á félaginu og þar munar mest um söluferli frystigeymslustarfsemi í Norður-Ameríku. Í tilkynningu segir að gert sé ráð fyrir að söluferlinu ljúki í febrúar eða mars.

Þá standa yfir samningaviðræður við lánveitendur til að tryggja rekstur Eimskips til framtíðar, að því er segir í tilkynningunni.

Eiginfjárhlutfall félagsins er neikvætt um tæp 7%, en í tilkynningunni segir að lausafjárstaða þess sé trygg.

Undir aflagða starfsemi falla gjaldfærslur vegna flugábyrgða og fjárhæðir í rekstri og efnahag dótturfélaga sem eru í sölumeðferð. Ábyrgð vegna XL Leisure Group hefur nú verið gjaldfærð og nemur færslan 227 milljónum evra. Tap af kæligeymslustarfsemi Innovate í Bretlandi er bókfært á 72 milljónir evra. Virðisrýrnun vegna frystigeymslna í Hollandi er 35 milljónir evra, en starfsemin er í sölumeðfeðr. Tap af frystigeymslustarfsemi nam 107 milljónum evra og í tilkynningu félagsins segir að það skýrist að miklum hluta af háum fjármagnskostnaði.