Tap Eimskips [ HFEIM ] á öðrum fjórðungi reikningsársins nam 101 milljón evra en tapið var 10 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra, samkvæmt afkomutilkynningu félagsins.

Án tillits til afskriftar Innovate, sem tilkynnt var um á dögunum, nam tap félagsins af áframhaldandi rekstri 33 milljónum evra. Afkoman er undir meðalspá greiningardeildanna sem hljóðaði upp á 20 milljóna evra tap á fjórðungnum.

EBITDA-hlutfall lækkar

Tekjur Eimskips námu 380 milljónum evra og voru einnig undir meðalspá, en spáin var upp á 454 milljónir evra.

Hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir, EBITDA, jókst um þriðjung frá sama fjórðungi í fyrra en EBITDA-hlutfallið lækkaði úr 11,2% í 10,5%.

Forstjóri segir tekjur og framlegð í samræmi við væntingar

Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir forstjóra þess, Gylfa Sigfússyni, að tekur og framlegð séu í samræmi við væntingar félagsins, „og ánægjulegt er að sjá góðan árangur í flutningastarfsemi í Rússlandi, Eystrasalti, Norður–Atlantshafssvæðinu, Íslandi og Norður-Ameríku.“

„Auk þess erum við áfram að sjá góðan rekstur hjá Versacold Atlas. Þrátt fyrir góðan undirliggjandi rekstur í okkar kjarnastarfsemi hefur afskrift á eignarhlut í Innovate veruleg áhrif á afkomu Eimskips, auk þess sem  jármagnsliðir eru áfram háir. Stjórn félagsins hefur sett sér það markmið að styrkja eiginfjárhlutfall félagsins fyrir lok ársins og að það verði að minnsta kosti 25%. Í framhaldinu verður góður undirliggjandi rekstur samstæðunnar sýnilegri og fjármagnskostnaður mun lækka. Framtíðarhorfur í rekstri félagsins eru góðar. Flutningastarfsemin er byggð á traustum grunni sem stefnt er að efla enn frekar með innri vexti og hagræðingu,“ er haft eftir Gylfa í tilkynningunni.

Framtíðarhorfur sagðar góðar

Framtíðarhorfur í rekstri eru sagðar góðar og flutningastarfsemin sögð byggjast á mjög traustum grunni sem stefnt sé að því að efla enn frekar með innri vexti og hagræðingu.

Um framtíðarhorfur segir enn fremur í tilkynningunni: „Búist er við að  heildartekjur Eimskips á rekstrarárinu 2008 verði um 1,4 milljarðar evra (áður 1,9 milljarðar evra). Lækkun frá fyrri tekjuáætlun skýrist af Innovate (300 milljónir evra) og vegna lækkunar á flutningatekjum samstæðunnar og gengisáhrifa (200 milljónir evra).

Reiknað er með að EBITDA í hlutfalli af tekjum verði yfir 11,5% (áður 9,5%). Hærra framlegðarhlutfall skýrist að mestu leiti af því að hætt hefur verið við fyrirhugaða eignasölu í Bandaríkjunum og Kanada, sem mun endurspeglast í hærri framlegð, en á móti hærri fjármagnskostnaði.

Stjórn félagsins hefur sett sér markmið um að eiginfjárhlutfall verði að minnsta kosti 25% fyrir árslok 2008. Til að ná því markmiði mun Eimskip skoða ýmsa valkosti sem tengjast Versacold Atlas í Bandaríkjunum eins og áður hefur verið tilkynnt.“