Faroe Ship, dótturfélag Eimskips í Færeyjum, hefur tekið í notkun nýjan hafnarkrana .

„Tilkoma nýja kranans er hluti af nýju og endurbættu siglingakerfi, sem tekið var í notkun um síðustu áramót og styður vel við vaxandi starfsemi félagsins á svæðinu.  Krananum hefur verið gefið nafnið Greppur,  sem þýðir Risinn,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Greppur vegur um 415 tonn, er um 35 metra hár og sá stærsti í Færeyjum.  Þá hefur hann mjög breitt vinnslusvið, sem nýtist vel í vinnu við losun og lestun gámaskipa. Kraninn er búinn öllum helstu þægindum og nýjungum t.d myndavél í bómu og loftkælingu.

„Tilkoma nýja kranans mun styðja vel við starfsemi okkar í Færeyjum, þar sem félagið hefur sterka stöðu. Við erum í hópi stærstu atvinnurekenda í Færeyjum, með um 170 manns í vinnu og sjáum góð tækifæri til vaxtar á næstu árum. Með sameiningu siglingakerfa gefst okkur einnig tækifæri til að auka nýtingu okkar skipa,“ segir Bragi Þór Marinósson, forstjóri Eimskips í Evrópu í tilkynningunni.