Eimskip hefur tekið á móti nýjum færanlegum hafnarkrana í Sundahöfn og hefur hann fengið nafnið Jötunn. Fjárfestingin kemur til vegna aukinna umsvifa félagsins á Austurlandi vegna skipaafgreiðslu fyrir Alcoa Fjarðaál. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Nýi hafnarkraninn, sem er af gerðinni Gottwald HMK 6407, er smíðaður í Þýskalandi og kemur í stað eldri krana af sömu tegund sem verður fluttur austur á Reyðarfjörð. Þar mun hann sinna skipaafgreiðsluverkefnum fyrir Alcoa-Fjarðaál.

Nýji kraninn var fluttur til landsins, fullsamsettur, á vegum félagsins Big Lift Shipping sem sérhæfir sig í þungaflutningum á sjó. Skipið sem flutti kranann er búið tveimur 250 tonna krönum enda má ekki minna vera þar sem nýji kraninn vegur um 420 tonn.

Kraninn fékk nafnið Jötunn eftir nafnasamkeppni meðal starfsfólk en eldri kranar Eimskips nefnast Jakinn og Jarlinn. Jötunn hefur 110 tonna lyftigetu, er með 950 hestafla vél og er 420 tonn að þyngd. Hann er 35 metra hár og með 51 metra langa bómu. Kraninn hefur jafnframt mjög breitt vinnslusvið sem nýtist vel í vinnu við losun og lestun gámaskipa. Kraninn getur farið með fulllestaða gáma út í 13. gámaröð í skipi, en stærstu skip Eimskips, Dettifoss og Goðafoss, eru 11 gámaraða. Kraninn er búinn öllum helstu þægindum og nýjungum t.d myndavél í bómu og loftkælingu.

Eimskip rekur nú tvo stóra gámakrana í Sundahöfn, sem lyfta samtals hátt í 100.000 gámum á ári.