Eimskip og Vegagerðin undirrituðu í dag samkomulag um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs næstu fimm árin. Eimskip mun taka yfir rekstur Herjólfs um næstu áramót og er fyrsta ferðin áætluð 2. janúar 2006.

Heildarflutningamagn með Herjólfi til og frá Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn hefur verið um 80.000 ? 120.000 farþegar á ári. Til viðbótar flytur ferjan 20.000 ? 32.000 fólksbifreiðir á ári og 2.700 ? 3.000 flutningabíla. Áætlunarferðir verða 13 til 14 í viku.

Óskað var eftir tilboði í rekstur ferju milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og var útboðið auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Eimskip var með hagstæðasta tilboðið og uppfyllti allar kröfur Vegagerðarinnar. Samningurinn er til fimm ára en með möguleika á að framlengja til tveggja ára. Að sögn Baldurs Guðnasonar, forstjóra Eimskips, er hér um að ræða jákvæða viðbót við flutningakerfi Eimskips. ,,Samningurinn styrkir okkur í því að byggja upp öflugt dreifingakerfi fyrir innanlandsflutninga."

Ferjan er mjög vel búin siglingatækjum svo og björgunarbúnaði. Í skipinu eru þrír aðalsalir. Matsalur með kaffiteríusniði sem rúmar um 130 manns í sæti við borð, sjónvarpssalur með rúmlega 80 þægilegum stillanlegum hvíldarstólum og svo setustofa með þægilegum sófastólum og borðum. Auk þess eru sófar og bekkir innan og utan dyra. Þá eru í skipinu 18 tveggja manna klefar sem flestir eru búnir salerni og snyrtingu, einnig 4 fjögurra manna klefar. Öll þessi rúm eru uppbúin og í klefunum er stillanlegar útvarpsrásir. Auk þess eru 32 kojur í fjögurra og átta manna rýmum en þeim kojum fylgja koddar og teppi.