Gengi hlutabréfa Eimskips tók dýfu í Kauphöllinni í dag, en gengið lækkaði um 4,96% í 499 milljóna króna veltu. Félagið hefur verið mikið til umræðu í dag eftir að RÚV greindi frá því í gærkvöldi að starfsmenn þess hefðu verið kærðir til sérstaks saksóknara vegna gruns um ólöglegt samráð.

Að öðru leyti var dagurinn rauður í Kauphöllinni. Bréf Haga voru þau einu sem hækkuðu og nam hún 0,33%. Önnur bréf lækkuðu umtalsvert. Gengi bréfa Össurar lækkaði um 2,44%, Marels um 2,39%, VÍS um 2,3%, Icelandair um 1,42%, Vodafone um 1,19%, TM um 1,05% og Reginn um 1,01%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,03% og var 1.144 stig í lok dags. Heildarvelta dagsins nam 963 milljónum króna.