Rekstrarhorfur fyrir árið 2008 hjá Eimskip eru ágætar, segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips. Hann segir árið munu einkennast af samhæfingu í rekstri nýrra og stórra eininga sem hafa bæst við í rekstri félagsins.

„Rekstur félagsins er traustur og sviptingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum koma ekki við undirliggjandi starfsemi,“ segir Baldur. „Háir vextir hafa áhrif á fjármagnskostnaðinn hjá okkur en þar sem unnið hefur verið markvisst að því að lækka skuldahlutfall félagsins og stefnt að enn frekari lækkun, sjáum við lækkandi kostnað þegar líða tekur á árið.

Það má segja að árið 2007 hjá Eimskip hafi einkennst af yfirtökum á öflugum kæli- og frystigeymslufyrirtækjum og sölu á öllum flugrekstrartengdum eignum. Við höfum náð markaðsleiðandi stöðu í kæli- og frystigeymslum um allan heim og sjáum mikil tækifæri felast í því forskoti sem við höfum á alþjóðavísu. Að auki berum við miklar vonir til nýrra og ört vaxandi flutningamarkaða í kringum Eystrasaltið og inn til Rússlands og í Asíu. Eimskip kemur því inn í árið 2008 með mjög skýrar línur,“ segir hann.