Eimskipafélagið [ HFEIM ] hefur selt flestar eignir Innovate, kæli- og frystigeymslufyrirtækið sem það ákvað nýverið að afskrifa að fullu fyrir 74,1 milljón evra, til breskra fyrirtækja. Stobart Group keypti kælisvið þess að mestum hluta og Yearsley Group keypti frystisviðið.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Eimskips, segir að sala þessara eigna hafi engin fjárhagsleg áhrif á Eimskip en allar eignasölur fyrirtækisins séu gegn yfirtöku skulda Innovate.

Áður hefur verið sagt frá að eignirnar voru í söluferli í kjölfar afskriftarinnar.

„Við erum búin að standa í löngu ferli síðustu vikurnar,“ segir Stefán Ágúst Magnússon, aðstoðarforstjóri Eimskipafélagsins, í samtali við Viðskiptablaðið og bendir á að árangur erfiðisins sé loks að skila sér.

Hann segir að Eimskip sé ábyrgt fyrirtæki og því hafi hagur þriggja hagsmunahópa verið hafðir að leiðarljósi:  Starfsmenn sem töldu um tvö þúsund, lánadrottnar og viðskiptavinir – svo að starfsemi þeirra myndi ekki raskast. Í erlendum fréttamiðlum má meðal annars lesa að Stobart Group tók við 1.300 starfsmönnum Innovate.

Eimskipafélagið er búið að tryggja að lánadrottnar fái upp í sínar kröfur, að sögn Stefáns Ágústs, en þeir munu ekki allir fá að fullu greitt.

Ekki að fullu selt

Stobart Group keypti kælisviðið ekki að fullu, að sögn Stefáns Ágústs. „Eitthvað mun standa út af borðinu til þess að fara í ferli í Bretlandi,“ segir hann. Auk þess hefur þriðja starfsvið Innovate ekki enn verið selt. Stefán Ágúst segir það lítinn hluta af starfsemi fyrirtækisins. Það sé einungs ein stöð (e. terminal) með lestarteinum þar sem stál var tekið úr lestum og geymt.

Eimskipafélagið er ekki lengur við stjórnvölinn á Innovate. Búið er að ráða sérstakan starfsmann sem er að ganga frá síðustu samningum og selja eignir frá félaginu.

Eimskipfélagið gleypti Innovate í tveimur bitum á árunum 2006 og 2007 en tilkynnti í síðasta mánuði að Innovate hefði verið afskrifað að fullu.