Eimskip hefur óskað eftir því að fá aðgang að þeim upplýsingum sem liggja að baki húsleitarbeiðni Samkeppniseftirlitsins til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni. Húsleitarheimildin sem héraðsdómur veitti var víðtæk en hún lítur að meintum brotum á 10. og 11. grein samkeppnislaga sem m.a. ná yfir verðsamráð.

Fram kemur í tilkynningu frá Eimskipi í kjölfar húsleitar Samkeppniseftirlitsins hjá Eimskipi og dótturfélögum á þriðjudag að þar sem ekki hafi orðið við óskum þess geti það ekki á þessari stundu áttað sig frekar á því á hvaða grunni úrskurðað var um heimild til húsleitar eða í hverju meint brot félagsins eiga að hafa falist. Á sama tíma var gerð húsleit hjá Samskipum og flutningafyrirtækjum í eigu fyrirtækisins.

„Því er Eimskip ekki í neinni stöðu til að tjá sig frekar um málið en fram hefur komið í tilkynningu til Kauphallar og vangaveltur um mögulega niðurstöðu rannsóknarinnar eru því með öllu ótímabærar og óábyrgar,“ að því er segir í tilkynningu Eimskips. Bent er á að í umfjöllun fjölmiðla hafi komið fram að Samkeppniseftirlitið hafi lokið gagnaöflun í bili og sé nú verið að vinna úr upplýsingunum. Ekki liggi fyrir hversu langan tíma vinnan muni taka. Eimskip segist vona að vinnunni ljúki sem fyrst.

Fjallað er um húsleit Samkeppniseftirlitsins í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .