*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 4. apríl 2017 12:39

Eimskip vísar málinu til dómstóla

Eimskip er ósammála lagatúlkun FME og vísar máli eftirlitsins til dómstóla.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eimskip er ósammála lagatúlkun Fjármálaeftirlitsins, en FME hefur tilkynnt stjórn félagsins að Eimskip hafi brotið gegn lög um verðbréfaviðskipti í tengslum við birtingu árshlutareikning fyrir fyrsta ársfjórðung 2016 og lagt á félagið 50 milljón króna stjórnvaldssekt. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

FME telur að brot Eimskips felist í því að hafa ekki birt fyrr innherjaupplýsingar sem mynduðust að mati Fjármálaeftirlitsins um bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016 eða sent FME tilkynningu um frestun birtingar. Þessari lögskýringu er Eimskip ósammála og vísar því málinu til dómstóla. Að mati félagsins var öllum undirbúningi við gerð og birtingu uppgjörsins hagað í samræmi við lög og góða stjórnarhætti.

„Eimskip er ósammála þeirri lögskýringu sem liggur til grundvallar niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins, m.a. á grundvelli neðangreindra atriða:

  • Birting árshlutauppgjörs er hluti reglulegrar upplýsingaskyldu, en ekki annarrar atviksbundinnar upplýsingaskyldu.
  •  Fjárhagsdagatal ársins 2016 lá fyrir þegar í desember 2015, um birtingardag þann 26. maí 2016. Sá dagur var síðan staðfestur með tilkynningu 18. maí 2016.
  • Félagið upplýsti í febrúar 2016 að það gerði ráð fyrir bættri afkomu samanborið við fyrra ár.
  • Undirbúningur og birting rekstraruppgjöra skráðra félaga er háð ákveðnu reglubundnu ferli sem krefst aðkomu stjórnenda, endurskoðunarnefndar og stjórnar. Endanlegt samþykki árshlutareiknings er í höndum stjórnar félagsins og hann er ekki hægt að birta fyrr en slíkt samþykki liggur fyrir.
  • Ekki er hægt að líta einvörðungu til EBITDA framlegðar heldur verður að horfa heildstætt á afkomu félagsins þegar árangur er metinn.
  •  Félaginu þykir skjóta skökku við að sektarfjárhæðin, 50 milljónir króna, er hærri en nettó aukning hagnaðar milli fyrsta ársfjórðungs 2015 og 2016, sem nam um 45,4 milljónum króna.
  • Félagið telur ekki rétt að beintengja breytingar á verði hlutabréfa félagsins í kjölfar uppgjörs einvörðungu við bætingu á EBITDA, þegar aðrir þættir geta haft verðmótandi áhrif, s.s. uppfærð afkomuspá, tilkynningar vegna fyrirhugaðs samstarfs við Royal Arctic Line, fyrirhuguð fyrirtækjakaup á árinu, flot á bréfum félagsins, almennar væntingar á markaði o.fl,“ segir í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar.

„Ef fallist verður á lögskýringu Fjármálaeftirlitsins mun hún leiða til þess í framkvæmd að skráðum félögum er í raun ómögulegt að standa eðlilega að vinnu við undirbúning fjárhagsuppgjöra, nema með því að taka ávallt upp það verklag að tilkynna eftirlitinu um frestun á birtingu upplýsinga um leið og undirbúningsvinna uppgjörs hefst. Vandséð er hins vegar hverju slík framkvæmd myndi þjóna og hvað þá fyrir fjárfesta sem eiga von á slíkri reglubundinni upplýsingagjöf af hálfu skráðra félaga á markaði,“ segir einnig þar.