Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði mest meðal félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar þriðja daginn í röð. Gengi flutningafélagsins hefur hækkað um 14% í vikunni og endaði daginn í 510 krónum á hlut, það hæsta í sögu félagsins. Hlutabréf Eimskips hafa verið á mikilli siglingu á síðastliðnu ári og hafa nú nærri fjórfaldast að markaðsvirði frá lok september 2020.

Mesta veltan var með hlutabréf Haga sem hækkuðu um 1,6% í nærri eins milljarðs króna viðskiptum. Gengi smásölufyrirtækisins hækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar í dag. Næst mesta veltan var með hlutabréf Festi sem lækkuðu um 0,8% í 868 milljóna viðskiptum.

Þá hækkuðu bæði útgerðarfélögin í viðskiptum dagsins. Gengi Síldarvinnslunnar hækkaði um 1,8% og náði sínu hæsta dagslokagengi frá skráningu í 92,4 krónum. Brim hækkaði einnig um 0,7%, þó í aðeins 21 milljóna veltu. Fiskistofa birti í dag aflahlutdeild útgerðanna í aflamarkskerfinu.

Origo lækkaði mest allra félag eða um 3,4%, þó í aðeins 28 milljóna viðskiptum. Gengi hugbúnaðarfyrirtækisins stendur nú í 70,5 krónum en félagið náði sínu hæsta gengi frá skráningu í 73 krónum í byrjun vikunnar. Arion banki lækkaði um 1,2%, næst mest allra félaga í dag.