*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 1. september 2020 17:35

Eimskipafélag Íslands hækkaði mest

Gengi bréfa skipafélagsins hækkaði um 1,23% í viðskiptum dagsins meðan Icelandair lækkaði um 2,54%.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi stóð nánast í stað í viðskiptum dagsins, en hún endaði í 2.106,87 stigum eftir 0,01% hækkun í milljarðs króna heildarveltu.

Mest hækkun var á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða um 1,23%, upp í 143,75 krónur hvert bréf, í 107 milljóna króna viðskiptum.
Næst mest hækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,48%, í jafnframt mestu viðskiptum dagsins eða fyrir 276,8 milljónir króna. Lokagengi bréfa bankans nam 72,65 krónum.

Þriðja mesta hækkunin ar á gengi bréfa Festi, eða um 0,35%, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir 3 milljónir króna, en bréfin fóru í 141,5 krónur í viðskiptunum.

Næst mestu viðskipti dagsins voru með bréf VÍS, eða fyrir 147,8 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 0,28% og enduðu í 10,60 krónum hvert. Þriðju mestu viðskiptin voru með bréf Símans, eða fyrir 136,1 milljón króna, sem jafnframt voru þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag, en bréf félagsins hækkuðu um 0,30%, upp í 6,70 krónur í þeim.

Mest lækkun var svo á bréfum Icelandair, eða um 2,54%, niður í 1,15 krónur, en viðskiptin námu 2 milljónum króna. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag voru langflestu viðskiptin í kauphöllinni í ágústmánuði með bréf Icelandair, en umfang viðskiptanna var þó ekki nægilega mikið til að félagið raðaði sér í toppsætin yfir mestu viðskiptin.

Næst mest lækkun var á bréfum Reita, eða um 1,17%, og fór gengi bréfanna í 42,40 krónur í mjög litlum viðskiptum, eða fyrir 424 þúsund krónur.