Í desember sl. sendi Eimskip frá sér afkomuviðvörun vegna fyrirséðrar gjaldfærslu á 4. ársfjórðungi. Þar kom m.a. fram að endurskoðun á virðisrýrnunarprófum félagsins væri ekki lokið og því óljóst hver heildargjaldfærsla vegna virðisrýrnunar myndi verða á 4. ársfjórðungi.

Nú þegar vinna við endurskoðun er lengra komin er ljóst að þörf er á frekari niðurfærslu eigna þ.m.t. hluta af viðskiptavild.

Aðrar eignir félagsins hafa auk þess verið endurmetnar og verðmæti þeirra fært niður í bókum félagsins.

Þetta kemur fram í nýrri afkomuviðvörun sem Eimskipafélagið sendi frá sér fyrir stundu.

Í henni kemur fram að viðskiptavild félagsins hefur vaxið mjög á síðustu árum í kjölfar mikilla fjárfestinga í fyrirtækjum.

Þá kemur fram að í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla hafi verið framkvæmd virðisrýrnunarpróf m.a. á viðskiptavild félagsins.

„Í ljósi aðstæðna á mörkuðum og  vegna varfærnissjónarmiða þá þarf að færa niður viðskiptavild félagsins. Ofangreint leiðir til þess að eigið fé félagsins mun verða neikvætt í árslok 2008 um allt að 150 milljónir evra,“ segir í afkomuviðvörun félagsins.

Sala eigna í Ameríku á að létta á skuldsetningu

Þá kemur fram að félagið hefur undanfarna mánuði unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu með innlendum og erlendum ráðgjöfum.

„Eimskip hefur þegar náð samkomulagi við mikinn meirihluta skuldabréfaeigenda um frestun vaxtagreiðslna og afborgana,“ segir í viðvörun félagsins.

„Félagið hefur einnig náð undirrituðu samkomulagi við hluta af öðrum innlendum og erlendum lánveitendum um frestum vaxtagreiðslna og afborgana. Félagið er jafnframt í viðræðum við aðra lánveitendur og hafa viðbrögð lánveitenda almennt verið jákvæð.“

Þá kemur fram að gert er ráð fyrir að sölu eigna í Norður-Ameríku ljúki í febrúar 2009 og mun salan létta verulega á skuldsetningu félagsins. Ekki er ljóst hvert söluverðmætið verður og því er enn óljóst hver áhrifin á sölunni verða endanlega.

„Eftir söluna á eignum félagsins í Norður-Ameríku verður farið í frekari viðræður við helstu lánveitendur um fjárhagslega endurskipulagningu,“ segir í tilkynningunni.

„Félagið hefur nú þegar hafið undirbúning að viðræðum við lánveitendur sem snúa að því að styrkja eiginfjárstöðu félagsins og tryggja framtíðarrekstur þess sem skipafélags.“

Segja grunnrekstur Eimskips góðann

Eimskipafélagið segir að þrátt fyrir erfiða skuldastöðu félagsins og óhagstæð skilyrði á fjármálamarkaði gangi grunnrekstur félagsins vel.

„Vel hefur gengið að aðlaga rekstur félagsins að þeim samdrætti sem hefur verið í flutningum til Íslands,“ segir í tilkynningunni.

„Lausafjárstaða félagsins er tryggð og stöðug. Grunnrekstur félagsins, flutningastarfsemin, gengur vel. Félagið mun sem fyrr veita viðskiptavinum félagsins trausta og góða þjónustu. Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand á Íslandi og á helstu mörkuðum félagsins hefur félaginu tekist að tryggja lausafjárstöðu og daglegan rekstur.“