„Eimskipafélagið er ekki í neinum vanskilum,“  sagði Stefán Ágúst Magnússon, fráfarandi aðstoðarforstjóri samstæðunnar, á afkomufundi í morgun.

Stefán Ágúst sagði að þrátt fyrir að eignfjárhlutfall Eimskipafélagsins [ HFEIM ] væri lægra en stjórnendur telja æskilegt – það var 14,4% við lok annars ársfjórðungs en þeir myndu vilja sjá það vera 25-30% - hefur sjóðstreymið verið nægjanlega sterkt til þess að standa straum af skuldsetningu félagsins.

Eiginfjárhlutfall Eimskipafélagsins lækkaði í 14,4% á öðrum ársfjórðungi, sem tilkynnt var um í morgun, úr 19% við lok síðasta ársfjórðungs. Lækkunina má að mestu rekja til þess að dótturfélagið Innovate var afskrifað með öllu, fyrir um 74,1 milljón evra eða 8,8 milljarða króna.

Mikla skuldsetningu Eimskipafélagsins má að rekja til  uppkaupa á síðustu misserum.  Stefán Ágúst sagði á afkomufundinum að margar af yfirtökunum hafi gengið prýðilega. Engu að síður hefur gæfan ekki alltaf verið stjórnendum og hluthöfum hliðholl.

Nærtækasta dæmið er afskriftin á Innovate. Auk þess átti að fjármagna kaupin á Atlas og Versacold með því að selja fasteignir félaganna og endurleigja þær. Það hefur ekki gengið sem skyldi og hafa stjórnendur Eimskipafélagsins sagt ástæðuna vera órói á fjármálamarkaði.  Að því sögðu ber að nefna að Eimskipafélagið seldi 23 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum síðasta vetur fyrir um 385 milljónir Kanadadollara eða um 24 milljarða króna á genginu sem þá var.

Tap Eimskipafélagsins á öðrum fjórðungi reikningsársins nam 101 milljón evra en tapið var 10 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra, samkvæmt afkomutilkynningu félagsins. Afskriftin á Innovate skýrir tapið að mestu – auk hárra fjármagnsliða.

Án tillits til afskriftar Innovate, sem tilkynnt var um á dögunum, nam tap félagsins af áframhaldandi rekstri 33 milljónum evra. Afkoman er undir meðalspá greiningardeildanna sem hljóðaði upp á 20 milljóna evra tap á fjórðungnum.