Eimskipafélagið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem laun forstjóra félagsins eru skýrð nánar en félagið segir misskilnings hafa gætt í umfjöllun um ársreikning félagsins fyrir reikningsárið 2008 í fréttum um afkomu félagsins.

Í tilkynningunni kemur fram að laun forstjóra félagsins skulu skoðast í samræmi við uppgjörsár félagsins sem er frá nóvember til október ár hvert.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Gylfi Sigfússon forstjóri hf. Eimskipafélagsins tók við starfi forstjóra í maí á síðasta ári, en þar áður hafði hann starfað hjá félaginu í Norður-Ameríku í 12 ár og undir það síðasta starfaði hann sem framkvæmdastjóri Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada.

Nýr launasamningur var gerður við Gylfa þegar hann tók við nýrri stöðu innan félagsins sem forstjóri þess. Við samningsgerð voru heildarlaun Gylfa 2,7 milljónir á mánuði. Þar sem fjölskylda Gylfa býr í Bandaríkjunum og illmögulegt fyrir hana að flytja til Íslands vegna skólagöngu barna var launagreiðslum skipt á milli Íslands og Bandaríkjanna miðað við gengi þess tíma.

Engir samningar eru við Gylfa um bónus- eða kauprétti. Gylfi tók á sig 10% launalækkun eins og aðrir starfsmenn félagsins þann 1. desember þegar ljóst var að ráðast þyrfti í aðgerðir til að lækka kostnað.

Uppgefin laun eru heildarlaun Gylfa, þar með talin laun frá því þegar hann starfaði fyrir Eimskip í Bandaríkjum.

Stefán Ágúst Magnússon starfaði sem fjármálastjóri félagsins þar til hann tók tímabundið við stöðu forstjóra í febrúar 2008 og gegndi þeirri stöðu þar til í maí, en þá tók hann aftur við stöðu fjármálstjóra þar til hann lét af störfum í október 2008.

Launagreiðslur til Stefáns í íslenskum krónum fyrir reikningsárið 2008, ekki eingöngu sem forstjóra, námu 67 milljónum og þar af námu bónusgreiðslur 18 milljónum.

Baldur Guðnason starfaði sem forstjóri félagsins til febrúar 2008 þegar hann lét af störfum. Við starfslok Baldurs var gerður við hann starfslokasamningur sem byggður var á ráðningarsamningi hans frá 2007, sem gerður var við Baldur af þáverandi stjórnarformanni.

Starfslokasamningurinn gerir ráð fyrir greiðslum að fjárhæð 50.000 Evra á mánuði í tvö ár. Í maí 2008 taldi stjórn Eimskipafélagsins að full ástæða væri til að skoða viðskilnað Baldurs við félagið, en þá hafði meðal annars komið fram alvarleiki rekstrarvandans og voru þá allar greiðslur til Baldurs stöðvaðar.

Í kjölfarið stefndi Baldur félaginu og er það mál nú fyrir dómstólum. Telur félagið meðal annars að forsendur sé brostnar fyrir öllum bónus- og starfslokagreiðslum. Launagreiðslur Baldurs námu 58 milljónum á reikningsári félagsins 2008 í sex mánuði og þar af nam bónusgreiðsla 30 milljónum króna.

Skal haft í huga að ársreikningur er í evrum og meðalgengi ársins er 114 íslenskar krónur.“