Í morgun fékk fyrirtækið Eimverk sem framleiðir viskí, gin og ákavíti verðlaunin Vaxtasproti ársins, en fyrirtækið var með 333,3% vöxt sölutekna milli ára. Verðlaunin er viðurkenning á öflugri uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári, en Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, afhenti þau í Kaffi Flóru Grasagarðinum í Laugardal.

Framleiðsla úr íslensku byggi

Jukust sölutekjur fyrirtækis um 333,3% milli ára, eða úr tæplega 16,2 milljónum í 70.2 milljónir króna. Starfsmönnum fjölgaði jafnframt úr 5 í 8 en auk fastra starfsmanna hafa 2 sumarstarfsmenn komið að framleiðslunni. Hefur útflutningur og sala í fríhöfn numið um 95% af veltu þess á undanförnum árum, en fyrirtækið rekur sögu sína aftur til ársins 2009 þegar tilraunir hófust á framleiðslu á viskíi úr íslensku byggi.

Fyrirtækið var svo stofnað 2011 og fyrstu vörur þess komu á markað 2013, en það sérhæfir sig í framleiðslu á Single Malt viskíi, gini og ákavíti undir vörumerkjunum Flóki, Vor og Víti. Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki en það hefur selt á sérhæfða markaði þar sem meira er lagt upp úr gæðum en magni, meðal annars í Þýskalandi, Ítalíu, Danmörku, Belgíu, Hong Kong, Ástralíu, Mexíkó og nú nýlega í Bandaríkjunum.

Fengu einnig viðurkenningu fyrir vöxt í veltu

Þrjú önnur sprotafyrirtæki fengu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu, það voru Lauf Forks, ORF-Líftækni og Valka, en Eimverk sýndi hlutfallslega mesta vöxt milli áranna 2014 og 2015, auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar.

Vaxtasprotinn er samstarfsverkefni Samtaka Iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands og er þetta í 10. skiptið sem verðlaunin eru veitt.