Borhola sem nýlokið er við í mynni Borgardals á Kópsvatni er með bestu lághitaholum sem boraðar hafa verið hérlendis að mati Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR.

Um er að ræða 1,5 kílómetra djúpa borholu sem Saga, bor Jarðborana, boraði, en verkið var unnið fyrir Hitaveitu Flúða.

Gekk borunin vel og skilaði hún yfir 70 l/sek af 110°C heitu vatni.

Líkur á öflugu jarðhitakerfi

Samkvæmt upplýsingum frá ÍSOR var ráðist í borun við Kópsvatn eftir að fyrir lágu viðamiklar rannsóknir að frumkvæði forsvarsmanna Hrunamannahrepps á jarðhita í hreppnum.

Þær leiddu í ljós að líkur eru á öflugum jarðhitakerfum á belti sem er um tveggja km breitt og teygir sig frá hálendisbrúninni við Tungufell eftir miðri tungunni milli Hvítár og Litlu-Laxár, allt suður fyrir Flúðir.