Þann 11. desember næstkomandi verður boðin til sölu í Christie's uppboðshúsinu Apple tölva. Tölvan er merkileg því hún er af gerðinni Apple-1 og því ein af allra fyrstu tölvunum sem Apple framleiddi og seldi. Var tölvan seld út úr bílskúr Steve Jobs í Palo Alto í Kalíforníu árið 1976.

Í frétt Ars Technica segir að tölvan, sem Charles Ricketts keypti fyrir 600 dali á sínum tíma, sé um 400.000-600.000 dala virði. Er vænt söluandvirði tölvunnar því á bilinu 50-70 milljónir íslenskra króna.

Christies fékk sérfræðing til að fara yfir tölvuna og skoða hvort hún væri enn starfhæf. Tókst honum að keyra Microsoft BASIC forrit á tölvunni sem og Star Trek tölvuleik sem gerður var fyrir Apple-1.