Vinnumálastofnun barst ein hópuppsögn í nýliðnum mánuði, þ.e. í október, en þar var sagt upp 51 starfsmanni. Uppsagnirnar taka gildi frá desember og fram í mars á næsta ári, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofunar.

Vinnumálastofnun segir hópuppsögnina í byggingarstarfsemi. Ekki er nánar farið út í hvaða fyrirtæki sagði upp starfsfólki.

VB.is greindi frá því á síðasta degi októbermánaðar að 75 manns hafi verið sagt upp hjá Ístaki um mánaðamótin. Hér á landi var 50 manns sagt upp en 25 manns í Noregi og á Grænlandi. Samtals hefur 100 manns verið sagt upp á tæpum tveimur mánuðum. Kolbeinn Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ístaks, sagði í samtali við VB.is fyrirtækið alla jafna fækka starfsfólki á þessum árstíma. Við bætist að Búðarhálsvirkjun sé að klárast og lítið sem taki við hjá Ístaki.