Forstöðumönnum ríkisstofnana hefur fækkað úr 222 frá því í september 2005 til janúar 2008, eða um sextán manns, að því er fram kemur í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

Á tímabilinu hefur fækkun í hópi forstöðumanna eingöngu verið meðal karla, en hlutfall kvenna hefur hækkað um tvö prósentustig, eða úr 22,5% í 24,5%, eða sem nemur einni konu.

Nú er 51 kona forstöðumaður ríkisstofnana og 157 karlar.

Flestar eru konurnar í stofnunum sem heyra undir menntamálaráðuneytið, 17 talsins, undir stofnanir heilbrigðisráðuneytisins og dóms-og kirkjumálaráðuneytisins heyra 8 kvenkyns forstöðumenn hvort, og undir félags- og tryggingaráðuneytið heyra 7 kvenkyns forstöðumenn. Færri heyra undir önnur ráðuneyti og undir utanríkisráðuneytið heyrir enginn kvenkyns forstöðumaður en þrír karlar.

Helstu áhrif á fjölda innan forstöðumannahópsins má rekja til töluverðra skipulagsbreytinga hjá ríkinu, þar sem stofnanir hafa ýmist verið sameinaðar, lagðar niður eða nýjar settar á laggirnar.