*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 13. janúar 2015 10:53

20 milljarðar í auknar ráðstöfunartekjur

Hver króna í aukna álagningu hjá olíufélögunum er mikið hagsmunamál fyrir íslenska neytendur, segir forstjóri FÍB.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Álagning íslenskra olíufélaga á bensín og dísil er meiri nú en áður hefur verið, en þetta staðfestir Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, í samtali við Viðskiptablaðið.

Runólfur Ólafsson, forstjóri FÍB, segir að hver króna í aukna álagningu, og þar með hærra bensínverð, sé mikið hagsmunamál fyrir neytendur. „Ef ein króna nær að haldast inni í álagningu yfir 12 mánuði ársins þá er sú króna um 340-350 milljónir fyrir olíufélögin. Ofan á þetta leggst síðan virðisaukaskattur. Þá erum við komin með 500 milljónir á ári úr vösum neytenda til olíufélaga,“ segir Runólfur.

Verð á bensíni samanstendur af bensínskatti, sérstökum bensínskatti og kolefnisgjaldi sem eru fastir krónutöluskattar og nema 69,71 kr. á hvern lítra. Ofan á leggst síðan innkaupsverð, sem hefur farið mjög lækkandi síðustu mánuði. Síðan bætist við álagning olíufélaganna og að lokum 24% virðisaukaskattur sem reiknast af samtölu hinna þáttanna. Engu að síður telja Skeljungur, FÍB og greiningardeild Arion banka að lækkun á olíuverði hafi ekki að fullu skilað sér út í verðlag og líklegt að það haldi áfram að lækka á næstu misserum.

Meðalútsöluverð á bensíni á seinasta ári voru um 240 krónur á lítrann. Haldist meðalverðið 200 krónur út árið má með nokkurri einföldun reikna með því að ráðstöfunartekjur íslenskra heimila og fyrirækja aukist um 20 milljarða á milli ára.

Á myndinni hér að neðan má sjá hlutfallslega verðþróun hráolíu á heimsmarkaði og bensíns á Íslandi. Rauðir punktar eru smásöluverð á bensíni, gula línan er verð á Brent hráolíu í íslenskum krónum og græna línan er verð á Brent hráolíu í Bandaríkjadölum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.


Stikkorð: Olíuverð Bensínverð