Rúmlega ein og hálf milljón heimsókna hafa verið á vefsíðu Mílu, livefromiceland . Þar er hægt að skoða myndir úr vefmyndavélum sem Míla hefur komið fyrir upp við Vaðöldu með útsýni yfir Bárðarbungusvæðið. Um tvær vikur eru síðan myndavélarnar voru settar upp.

Fram kemur á vef Mílu að flestar voru heimsóknirnar á föstudag eða um 422.000 á einum sólarhring. Flestir þeirra sem fara inn á vefinn til að skoða útsendingu vefmyndavélarinnar eru frá Evrópu og Ameríku. Aðeins 20% heimsókna eru frá íslenskum notendum.

Á vef Mílu segir að fyrsta vefmyndavél Mílu var sett upp í Eyjafjallagosinu árið 2010. Þá hafi öll met verið slegin í heimsóknum á eina síðu. Síðan hafa margir vanið komur sínar á síðuna til að fylgjast með vefmyndavélunum, þann tíma sem liðinn er frá síðasta gosi.