Bandaríska fjártæknifyrirtækið Stripe hefur lokið 6,5 milljarða dala fjármögnun, eða sem nemur tæplega 920 milljörðum króna. Stripe er metið á 50 milljarða dala í fjármögnunarlotunni en til samanburðar var félagið metið á 95 milljarða dala í hlutafjáraukningu árið 2021.

Meðal hluthafa Stripe er Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem fjárfesti fyrst í fjártæknifyrirtækinu í árslok 2019. Stripe var þá ‏á metið á 35 milljarða dala. Ekki er minnst á Novator í tilkynningu sem Stripe birti í gær og ‏‏‏‏því óvíst hvort fjárfestingarfélagið hafi tekið ‏þátt í fjármögnunarlotunni.

Í umfjöllun Financial Times segir að um sé að ræða eina af stærstu hlutafjáraukningu sögunnar hjá óskráðu bandarísku félagi. Jafnframt gefi fjármögnunin til kynna að tæknifyrirtæki þurfi sennilega að sætta sig við töluverðan afslátt frá verðmati undanfarinna ára vilji þau sækja n‎ýtt hlutafé.

Meðal fjárfesta sem tóku ‏þátt í hlutafjáraukningunni voru Founders Fund, fjárfestingarfélag sem telur Peter Thiel sem meðeiganda, Andreessen Horowitz og tveir ‏singapúrskir þjóðarsjóðir.